Saturday, January 26, 2013

Úlfarsfell 20.janúar 2013

Þetta er fyrsta gönguferð ársins þar sem gengið er annarsstaðar en á jafnsléttu. Tilefni þessarar göngu má kannski rekja til þess að til stendur að skrá sig í eitt fjall á mánuði hjá FÍ og hefst það ævintýri næsta laugardag með göngu á Kóngsfell í Bláfjöllum. Síðan á að ganga mánaðarlega á eitthvert útvalið fjall.
Gönguferð dagsins var hugsuð sem þjálfunarferð fyrir meiri átök auk þess að kanna búnað og annað sem nauðsynlegt er að hafa í lagi. Nú nú en sem sagt, þær Stína og Steinunn höfðu ákveðið að gengið skyldi í dag og ákveðið var að hittast á bílaplaninu fyrir neðan Úlfarsfellið þegar maður kemur inn fyrir byggðina í Úlfarsárdalnum. Strekkingsvindur var á planinu, hiti um 5 gráður en mikil loftkæling, úrkomulaust. Við bjuggumst til göngu með stafi og mal, þ.e.a.s. undirritaður var með bakpoka, en það var hluti af þjálfuninni að taka til í bakpoka og bera hann. Við stikuðum af stað og sóttist vel. Konum þótti við fara einum of geyst og má til sannsvegar færa því það segir mér Hjálmur göngufræðingur að skynsamlegast sé að fara rólega af stað því annars sé hætta á að fólki sprengi sig. Heldur bætti í vind eftir því sem ofar dró og þar kom að Steinunni fannst sem hún myndi fjúka ef hún ekki hengdi sig aftan í sinn ágæta. Sóttist ferðin hægt en örugglega. Víða var skreipt í spori vegna ísingar og því betra að fara varlega. Nauðsynlegt er að kaupa hálkubrodda (sem áður hétu mannbroddar en það heiti var bannað af Jafnréttisráði) og festa á skóbúnað sinn. Við komumst upp að húsinu á topp. fellsins og fengum þar aðeins skjól og gátum notið þess sem upp kom úr bakpokanum. Bálhvasst var á toppnum.
Eftir ca 15 mín stopp var haldið af stað niður aftur og var það sínu léttara, bæði undan brekkur og vindur frekar á eftir.
Þegar niður kom var skoðað ferlið í SportsTracker og þá kom í ljós að þetta voru 4 km og við höfðum verið 1,42 klst í ferðinni. Hæðin reyndis verða ca. 360 m.
Við ákváðum að leggja lykkju á hala okkar og fá okkur hressingu og var ákveðið að fara í veitingastofuna í Álafosskvosinni og þar fengum við okkur ágætan morgunverð með beikoni og allskonar.
Síðan fór hver sína leið.

Hér eru 3 myndir sem teknar voru í lok ferðar. Myndavélin var ekki með í för og í rokinu á fellinu gleymdist að taka toppmyndir á símann.

Eftir gönguna fyrir utan kaffistofuna

                     Gluggað í Mosfellspóst                                 Álafoss