Þríhyrningur

13.9.2. Þríhyrningurer allstórt og áberandi fjall austan við Þríhyrningsvatn, í miðjum þeim fjallgarði sem við það er kenndur. Eins og nafnið bendir til hefur það þrjú aðalhorn eða tinda, og er norðurhornið hæst, 958 m y.s. Fjallið er allt úr móbergi og bólstra/kubbabergi, myndað við eldgos undir jökli á fyrri skeiðum síðustu ísaldar. Það er lítið gróið, og ljósir vikurskaflar eru áberandi utan í hlíðum þess.
******************************************************************************
Fjallið Þríhyrningur gnæfir yfir Fljótshlíðina og Landeyjar. Sættir fóru út um þúfur á Alþingi eftir víg Höskuldar hvítanesgoða og því ekkert til ráða nema hefndir. Flosi Þórðarson á Svínafelli, sem sá um málið fyrir hönd ekkjunnar og bróðurdóttur sinnar Hildigunnar Starkaðardóttur, stefndi fylgismönnum sínum þangað þegar tæpar átta vikur voru til vetrar. Brennumenn hittust við Þríhyrningshálsa þar sem þeir leyndust þar til þeir fóru að Bergþórshvoli. Eftir brunann á Bergþórshvoli héldu brennumenn upp á Þríhyrning í Flosalág, þar sem þeir dvöldu þar til þeir sáu að þeim stóð ekki lengur hætta af eftirleitarmönnum
******************************************************************************
Ef til vill má segja um þessa ferð að þetta hafi verið apríl gabb af bestu gerð. Samkvæmt upprunalegum áætlunum áttum við að ganga á Heklu. Fréttir bárust af því að aðstæður í fjallinu væru ekki góðar, þar væri allt á ís og var förin því sett í salt. Í þessari ferð voru allir hóparnir í "eitt fjall á viku" verkefninu komnir saman. En öll vandamál hafa lausnir og túrnum snögglega breytt í gosferð á Morinsheiði til að virða fyrir okkur hið nýja Ísland. En það reyndist skammtímalausn því þegar á Hvolsvöll var komið var lokað inn í Þórsmörk. Eftir smá fundarhöld var það þingfest að við færum á Þríhyrning fyrir ofan Hvolsvöll en þaðan gætum við séð yfir að gosinu á Fimmvörðuhálsi (reykinn af réttinum). Allt var þetta fallegt, veður bjart og útsýnið eins og lýst er í sögubókunum. Við gengum á alla fjóra tindana á þríhyrning umhverfis Flosadalinn. Af Norðurtindinum var einstakt útsýni til Heklu, Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls, eldstöðvarinnar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökuls (sem var þá ekki farinn að gjósa). Í ferðinni voru fróðir menn sem usu úr viskubrunnum sínum um ýmis eldsumbrot og önnur íslandsátök, Brennunjálu og heitar meyjar. Fróðleik þessum var miðlað bæði í bundnu og óbundnu máli með miklum tilþrifum. Eftir frábæran göngutúr og komið var niður að rútunum sem stóðu við fiskánna, fengu göngumenn páskaegg í boði Góu og FÍ. Þórður Hinn Ungi deildi eggjunum bróðurlega út, þó stúlkurnar hafi reynt að rétta hlut sinn með því að smygla sér í röðina. En fyrst við vorum stödd hérna megin Hellisheiðar var gráupplagt að aka í Fljótshlíðina og taka Stóru Dímon í leiðinni (sem ég heyrði að væri hún en ekki hann). Einnig hafði fréttst að búið væri að opna í Þórsmörk og rann nú fjallaæði á nokkra sem tóku að tala fyrir göngu á Morinsheiði og kíkja á hraunfossana. Ferðalangar voru misupplagðir enda langt liðið á daginn, og sumir búnir með nestið sitt osfrv. Niðurstaðan var sú að hluti af hópnum fór inn á Morinsheiði restin hélt á Stóru Dímon og svo heim. Sjá framhald...
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
 Fjall: Þríhyrningur (#13)
 Dagur: fim 01-04-2010
 Upphaf kl: 10:45 (við Fiská)
 Hæsta punkti náð kl:  13:18
 Uppgöngutími: 3 klst 33 mín
 Göngulok kl: 15:23
 Göngutími alls: 4 klst 38 mín
 Upphafshæð GPS:  130 m
 Mesta hæð GPS: 699 m     
 Hækkun: 569 m
 Göngulengd - meðalhraði 8,3 km -