Hann er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda sést hann víða úr byggðum á suðvesturlandi og vekur athygli fyrir fegurð sína og einstæða staðsetningu.
Gönguleið Fram og til baka
Vegalengd 7 km
Göngutími 2-3 klst
Landslag Slétt land að fjallinu en bratt upp.
Hækkun 250 m
Mesta hæð 379 m
Gráðun C, nokkuð löng gönguleið
Tengingar Trölladyngja og Grænadyngja, Sog
Nokkuð löng gönguleið á fallegt fjall.
Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Það er leyfar af bergstandi, sem er sívalar eða ílangar gíg- eða gosrásarfyllingar úr basalti eða líparít sem eftir standa er eldfjöll veðrast í burtu. Að öðru leiti er Keilir úr móbergi sem glöggt má sjá.
Ekið er af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar af afrein til hægri og liggur hún síðan undir veginn. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum. Jeppavegur liggur upp eftir litlu en löngu felli sem nefnist Oddafell og er best að leggja bílnum við taglið þar sem sá vegur byrjar. Þaðan er um þriggja kílómetra gangur að að fjallinu, um nokkuð ógreiðfært hraun fyrst í stað en stutt er í betra færi.
Gott er að ganga á fjallið þó bratt sé en vissara er að fara varlega. Auðfarið er upp því myndast hefur greinilegur göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind.
Þó fjallið sé ekki hátt er útsýnið gríðarlega fallegt ekki síst um nánasta umhverfi, mosavaxin brunahraun. Uppi er gestabók í skemmtilega hönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann.
Sama leið er farin niður af fjallinu að að bílnum.