Það var laugardagurinn fyrir páska og fínasta veður. Við ákváðum að fara í bíltúr og kannski hreyfa okkur eitthvað. Ég var lengi búinn að hugsa mér að fara og taka myndir af Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi og svo Reynivöllum í Kjós. Við dressuðum okkur í útiföt og drifum okkur af stað. Birtan var fín og ég náði fínum myndum á báðum þessum kirkjum. Steinunn var að venju búin að gúggla álitlegar gönguleiðir og kom í ljós að í Kjósinni var til dæmis hægt að velja um tvö fell, Írafell og Sandfell. Þegar að var komið ákváðum við að ganga á Írafellið í þetta skiptið en það er um 260 m hátt fell. Bærinn Írafell stendur undir fellinu en við hann er Írafellsmóri kenndur. Við keyrðum fram hjá Vindáshlíð og komum þá auga að þar er líka kirkja. Við gengum svo á fellið og var það þægileg ganga. Þegar niður kom aftur fórum við í Vindáshlíð, ég tók myndir af kirkjunni og við tókum okkur sæti á bekk og drukkum nestið.
Síðan var ekið heim.
Leiðin skv. Sports Tracker