Friday, August 23, 2013

Miðfell við Flúðir

Aldrei þessu vant var mikið góðviðri þennan dag sem var 2. ágúst 2013, sól í heiði og bjart um alla jörð. Við ákváðum að aka austur fyrir Fjall og upp að Flúðum. Reyndar var nú tilgangurinn líka að koma við í Heiðarbyggð við Langholtsfjall og skoða sumarbústað sem auglýstur var til sölu.

Við ókum sem leið lá austur og skoðuðum bústaðinn og reyndar annan líka á sama svæði sem er til sölu. Þessi staður er auðvitað magnaður að því er varðar útsýni og þess háttar auk þess sem þarna er hitaveita og öll þægindi. Hvað svo verður veit nú enginn.

Eftir að hafa skoðað þessi hús ókum við upp að Flúðum og skoðuðum aðeins þar í kring og m.a. fórum og litum á tjaldstæðið en það var gersamlega kjaftfullt að því er okkur sýndist.

Að þessu loknu ákváðum við að ganga á Miðfell sem er bæjarhóllinn þeirra á Flúðum.

Á vefsíðunni Gönguleiðir.is má lesa eftirfarandi:

Ljúf gönguleið á skemmtilegt fjall í Hreppum. Alls ekki erfið leið og hentar því flestum gönguvönum. Best er að ganga á fjallið að norðaustan og er smá útskot við veginn þar sem við leggjum í hann. Leiðin liggur á ská til vinstri upp á fellið og þar er upplagt að ganga hring á fjallinu til að njóta útsýnis. Höldum svo sömu leið niður aftur.

Nánari lýsing:
Það má kannski segja að Miðfell sé bæjarfjall íbúa á Flúðum. Sá er þetta ritar gekk á fjallið eitt fallegt sumarkvöld þegar kvöldsólin baðaði Suðurlandið með geislum sínum.
Gangan á fjallið er ekki löng. Við göngum upp grasi vaxna hlíðina á norðurhluta fjallsins sem liggur því sem næst frá norðri til suðurs. Við göngum rangsælis á fjallið og förum því beint á hæsta hnúkinn sem er norðan meginn á fjallinu.
Við sjáum strax að þokkalega stórt vatn er á toppnum, kallað Fjallsvatn. Á veturnar frýs það oft og sökum þess hversu lítil hreyfing er í því má oft sjá í gegn um ísinn niður á botn.
Þegar við göngum hringinn á fjallinu má sjá gríðarmikið útsýni yfir fjall- og flatlendi Suðurlands. við sjáum Hvíta og Litlu Laxá liðast um undirlendið. Jarlhettur og Langjökull sjást í fjarska og Bláfell 

litlu lengra. næst okkur sjáum við Gálgafell og þar undir er bærinn Galtafell. Þar fæddist myndhöggvarinn Einar Jónsson árið 1874.
Eftir góðan hring höldum við niður hlíðina að bílnum.

Við gengum merkta gönguleið upp á fellið og síðan í kringum vatnið. Gleymdum auðvitað ekki að signa okkur áður en við komum að því. Enda fór það svo að engan sáum við nykurinn.

Eftir að hafa notið útsýnis og veðurblíðu héldum við aftur niður og heim á leið.

Hér má sjá leiðina ásamt fleiri upplýsingum.

http://www.sports-tracker.com/#/workout/eikigrims/fpb3ui83soccnams






Nokkrar myndir úr ferðinni