Við höfðum lesið um fyrirbæri sem heitir Sogin og er á Reykjanesi. Síðast heyrðum við að þau Guðmundur og Stína hefði gengið þangað fyrir nokkrum dögum og kunnað vel við sig þar. Einnig hafði Fjalar, vinnufélagi SMG, farið þangað fyrir stuttu og birti flottar myndir á fésbókarsíðu sinni. Á síðasta sumri höfðum við ekið inn að Djúpavatni og lagt bílnum við Lækjarvelli og labbað þar aðeins um. Við vissum þá um Sogin en gengum ekki þangað.
Nú sem sagt ákváðum við að nýta þennan fallega sólardag til að skoða þetta náttúrufyrirbæri. Löguðm af stað um hálf tvöleytið og ókum sem leið lá suður Reykjanesbraut og tókum svo afleggjarann að Keili. Vegurinn þangað er ansi harður og ekki heppilegur til hraðaksturs. Við ókum svo fram hjá Lambafelli, en Lambafellsgjá klýfur fellið og áfram upp á Höskuldarvelli. Þar er bílastæði þar sem við lögðum bifreiðinni og héldum af stað inn í Sogin.
Við vorum nú ekki alveg viss um leiðina en gengum upp með læk sem nefnist Sogslækur. Þarna voru nýgengin spor þannig að við héldum ótrauð áfram. Sólin skein glatt en vindur blés af norðri og hitastigið var um 8 gráður á C. Við gengum alla leið inn i botn á Sogunum og af hæð þar fyrir ofan sáum við niður á Spákonuvatn. Í bakaleiðinni gengum við aðeins austar og af brúninni þar mátti sjá Djúpavatn og Lækjarvelli sem áður var minnst á.
Litadýrð er mikil í Sogunum enda er þarna jarðhiti og allskonar litfagar útfellingar ber fyrir augu. við tókum okkur góðan tíma í að virða þessa fegurð fyrir okkur og tókum helling af myndum.
Það er mikill leir í lækjarfarveginum og því betra að vera vel skæddur (Skóaður).
Þegar í bílinn var komið aftur fengum við okkur gott kaffi og kringlur og héldum síðan heim á leið. Þessi göngutúr tók um 3 klukkustundir en vandalaust er að fara þetta á mun styttri tíma.
Það er hiklaust hægt að mæla með því að leggja leið sína í Sogin og skoða litadýrðina sem þar má sjá.
Hér má svo sjá fáeinar myndir sem sýna ótvírætt fegurðina sem fyrir augu bar.
SMG |
EG |
Litbrigðin eru mögnuð |
Varmaútfellingar
|
Jarðhiti |
No comments:
Post a Comment