Sunday, June 30, 2013

Selskógur 15.6.2013

Þetta var fyrsta útilega sumarsins með hjólhýsið. Upphaflega hafði verið áætlað að fara  norður í Þórdísarlund en svo fóru að renna á okkur tvær grímur hvort við ættum að fara þangað eða eitthvað annað. En við lögðum af stað og ein hugmyndin var að fara að Lýsuhóli á Snæfellsnesi en Steinunn hafði nú fyrirhyggju á og hringdi þangað og þar var þá blindþoka. Það var þá afskrifað. Þá var það Húsafell og hún hringdi þangað líka og þá var nú farið að fjölga þar ansi mikið. Svo var það bara á leiðinni eftir göngin að Selskógur kom upp í hugann og við drifum okkur þangað. Þar var ekki mikið fjölmenni og auðvelt að fá gott stæði fyrir hjólhýsið. Þetta var sem sagt föstudaginn 14. júní þetta merka ár 2013. Við lögðum húsinu á ágætu stæði og höfðum það bara notalegt.
Daginn eftir var glampandi sólskin og við ákváðum að fara í göngutúr og leiðin sést hér á myndinni og nánar ef klikkað er á linkinn. Við gengum sem leið lá upp með gilinu, upp fyrir skógræktina og síðan ofan klettabeltis erm þarna er. Höfðum fínt útsýni yfir sumarbústaðasvæðið og raunar mest allan dalinn.
Við rákumst á ýmsar hindranir á leiðinni en erfiðust var rafmagnsgirðing í kringum skógræktina. Það var snúið að koma SMG þar yfir en að lokum notaði hún rolluaðferðina og skreið undir girðingu í lækjarfarvegi.

Gönguleiðin


Í bakaleiðinni komum við við hjá Hildi forstjóra Iðunnar og Einari og þágum veitingar. Það var notalegt.




Nokkrar myndir úr göngunni

Saturday, June 29, 2013

Búrfellsgjá 11.6.2013

Nýstofnað göngufélag Iðunnar fór í sína fyrstu gönguferð þann 11. júní 2013. Mæting var fremur dræm en þeir sem gengu voru Hildur Elín Vignir forstýra og Einar hennar maður og Einar sonur þeirra og svo við Steinunn.
Gengið var í Búrfellsgjá. Veðrið var ágætt, svolítill vindur, en þurrt að kalla.
Við gengum þetta fremur rólega og skoðuðum gjótuna djúpu, réttina og hellaskúta og röbbuðum um daginn og veginn eins og gengur. Fórum alveg upp í gíginn. Margt var spjallað og spekúlerað á leiðinni og var það bæði fróðlegt og skemmtilegt.

Þetta var hressandi og fínn göngutúr.

Gönguleiðin


Wednesday, June 19, 2013

Kjalarnes 1.6.2013

Það verður nú varla sagt að vel hafi viðrað að undanförnu, legið í suðvestanátt með roki og rigningu og verið ansi þungt yfir öllu. Bjartara hefur verið á Norðausturlandi og sólin skinið þar. Guðmundur títtnefni orðaði það við mig í síðustu viku að Stína hefði hug á að ganga á Þríhyrning. Þau hjón höfðu gengið á það merka fjall fyrir 12 árum síðan og langaði til að endurtaka leikinn. Ég tók þessu harla vel og færði í tal við SMG, Henni leist vel á. Reyndar var það samt þannig að í vinnunni hjá henni var ákveðið að fara í sveitaferð til Bigga og Óskar að Neðra-Seli á laugardeginum. Þetta hafði nú ekki verið fastmælum bundið en þegar spáð var þungbúnu veðri ákváðum við að fara austur með þau Birtu og Oliver með okkur. Það var fínn túr og öllum fannst gaman. Nú en hvað um það. Meðan ég var í messunni á sunnudeginum hringdi Guðmundur í SMG og minntist á að hann væri fullur af kvefi en þau langaði að labba eitthvað. Þegar ég kom heim var málið rætt og við fórum svo til þeirra milli 13:30 og 14.

Nú það skipti engum togum að Guðmundur sagði ákveðið; "Nú komið þið með okkur" og síðan var ekið sem leið lá upp á Kjalarnes. Það voru undur og stórmerki; nefnilega stafalogn og blíðuveður. Eitthvað sem sjaldan skeður. Við gengum þarna góðan hring og virtum fyrir okkur fuglalífið og náttúruna.
Þarna var gríðarlegt mávager og einstaka æðarkolla á hreiðri. Mikið var af æðarblikum.

En hvað um það, við gengum þarna um svæðið í bliðunni og tókum eitt gott nestisstopp. Enduðum á að ganga upp á Borgir sem er rúmlega 40 m hár klettur.

Þetta var fínn göngutúr um svæði sem kom á óvart í veðri sem kom ennþá meira á óvart.

Gönguleiðin