Friday, August 23, 2013

Miðfell við Flúðir

Aldrei þessu vant var mikið góðviðri þennan dag sem var 2. ágúst 2013, sól í heiði og bjart um alla jörð. Við ákváðum að aka austur fyrir Fjall og upp að Flúðum. Reyndar var nú tilgangurinn líka að koma við í Heiðarbyggð við Langholtsfjall og skoða sumarbústað sem auglýstur var til sölu.

Við ókum sem leið lá austur og skoðuðum bústaðinn og reyndar annan líka á sama svæði sem er til sölu. Þessi staður er auðvitað magnaður að því er varðar útsýni og þess háttar auk þess sem þarna er hitaveita og öll þægindi. Hvað svo verður veit nú enginn.

Eftir að hafa skoðað þessi hús ókum við upp að Flúðum og skoðuðum aðeins þar í kring og m.a. fórum og litum á tjaldstæðið en það var gersamlega kjaftfullt að því er okkur sýndist.

Að þessu loknu ákváðum við að ganga á Miðfell sem er bæjarhóllinn þeirra á Flúðum.

Á vefsíðunni Gönguleiðir.is má lesa eftirfarandi:

Ljúf gönguleið á skemmtilegt fjall í Hreppum. Alls ekki erfið leið og hentar því flestum gönguvönum. Best er að ganga á fjallið að norðaustan og er smá útskot við veginn þar sem við leggjum í hann. Leiðin liggur á ská til vinstri upp á fellið og þar er upplagt að ganga hring á fjallinu til að njóta útsýnis. Höldum svo sömu leið niður aftur.

Nánari lýsing:
Það má kannski segja að Miðfell sé bæjarfjall íbúa á Flúðum. Sá er þetta ritar gekk á fjallið eitt fallegt sumarkvöld þegar kvöldsólin baðaði Suðurlandið með geislum sínum.
Gangan á fjallið er ekki löng. Við göngum upp grasi vaxna hlíðina á norðurhluta fjallsins sem liggur því sem næst frá norðri til suðurs. Við göngum rangsælis á fjallið og förum því beint á hæsta hnúkinn sem er norðan meginn á fjallinu.
Við sjáum strax að þokkalega stórt vatn er á toppnum, kallað Fjallsvatn. Á veturnar frýs það oft og sökum þess hversu lítil hreyfing er í því má oft sjá í gegn um ísinn niður á botn.
Þegar við göngum hringinn á fjallinu má sjá gríðarmikið útsýni yfir fjall- og flatlendi Suðurlands. við sjáum Hvíta og Litlu Laxá liðast um undirlendið. Jarlhettur og Langjökull sjást í fjarska og Bláfell 

litlu lengra. næst okkur sjáum við Gálgafell og þar undir er bærinn Galtafell. Þar fæddist myndhöggvarinn Einar Jónsson árið 1874.
Eftir góðan hring höldum við niður hlíðina að bílnum.

Við gengum merkta gönguleið upp á fellið og síðan í kringum vatnið. Gleymdum auðvitað ekki að signa okkur áður en við komum að því. Enda fór það svo að engan sáum við nykurinn.

Eftir að hafa notið útsýnis og veðurblíðu héldum við aftur niður og heim á leið.

Hér má sjá leiðina ásamt fleiri upplýsingum.

http://www.sports-tracker.com/#/workout/eikigrims/fpb3ui83soccnams






Nokkrar myndir úr ferðinni

Sunday, June 30, 2013

Selskógur 15.6.2013

Þetta var fyrsta útilega sumarsins með hjólhýsið. Upphaflega hafði verið áætlað að fara  norður í Þórdísarlund en svo fóru að renna á okkur tvær grímur hvort við ættum að fara þangað eða eitthvað annað. En við lögðum af stað og ein hugmyndin var að fara að Lýsuhóli á Snæfellsnesi en Steinunn hafði nú fyrirhyggju á og hringdi þangað og þar var þá blindþoka. Það var þá afskrifað. Þá var það Húsafell og hún hringdi þangað líka og þá var nú farið að fjölga þar ansi mikið. Svo var það bara á leiðinni eftir göngin að Selskógur kom upp í hugann og við drifum okkur þangað. Þar var ekki mikið fjölmenni og auðvelt að fá gott stæði fyrir hjólhýsið. Þetta var sem sagt föstudaginn 14. júní þetta merka ár 2013. Við lögðum húsinu á ágætu stæði og höfðum það bara notalegt.
Daginn eftir var glampandi sólskin og við ákváðum að fara í göngutúr og leiðin sést hér á myndinni og nánar ef klikkað er á linkinn. Við gengum sem leið lá upp með gilinu, upp fyrir skógræktina og síðan ofan klettabeltis erm þarna er. Höfðum fínt útsýni yfir sumarbústaðasvæðið og raunar mest allan dalinn.
Við rákumst á ýmsar hindranir á leiðinni en erfiðust var rafmagnsgirðing í kringum skógræktina. Það var snúið að koma SMG þar yfir en að lokum notaði hún rolluaðferðina og skreið undir girðingu í lækjarfarvegi.

Gönguleiðin


Í bakaleiðinni komum við við hjá Hildi forstjóra Iðunnar og Einari og þágum veitingar. Það var notalegt.




Nokkrar myndir úr göngunni

Saturday, June 29, 2013

Búrfellsgjá 11.6.2013

Nýstofnað göngufélag Iðunnar fór í sína fyrstu gönguferð þann 11. júní 2013. Mæting var fremur dræm en þeir sem gengu voru Hildur Elín Vignir forstýra og Einar hennar maður og Einar sonur þeirra og svo við Steinunn.
Gengið var í Búrfellsgjá. Veðrið var ágætt, svolítill vindur, en þurrt að kalla.
Við gengum þetta fremur rólega og skoðuðum gjótuna djúpu, réttina og hellaskúta og röbbuðum um daginn og veginn eins og gengur. Fórum alveg upp í gíginn. Margt var spjallað og spekúlerað á leiðinni og var það bæði fróðlegt og skemmtilegt.

Þetta var hressandi og fínn göngutúr.

Gönguleiðin


Wednesday, June 19, 2013

Kjalarnes 1.6.2013

Það verður nú varla sagt að vel hafi viðrað að undanförnu, legið í suðvestanátt með roki og rigningu og verið ansi þungt yfir öllu. Bjartara hefur verið á Norðausturlandi og sólin skinið þar. Guðmundur títtnefni orðaði það við mig í síðustu viku að Stína hefði hug á að ganga á Þríhyrning. Þau hjón höfðu gengið á það merka fjall fyrir 12 árum síðan og langaði til að endurtaka leikinn. Ég tók þessu harla vel og færði í tal við SMG, Henni leist vel á. Reyndar var það samt þannig að í vinnunni hjá henni var ákveðið að fara í sveitaferð til Bigga og Óskar að Neðra-Seli á laugardeginum. Þetta hafði nú ekki verið fastmælum bundið en þegar spáð var þungbúnu veðri ákváðum við að fara austur með þau Birtu og Oliver með okkur. Það var fínn túr og öllum fannst gaman. Nú en hvað um það. Meðan ég var í messunni á sunnudeginum hringdi Guðmundur í SMG og minntist á að hann væri fullur af kvefi en þau langaði að labba eitthvað. Þegar ég kom heim var málið rætt og við fórum svo til þeirra milli 13:30 og 14.

Nú það skipti engum togum að Guðmundur sagði ákveðið; "Nú komið þið með okkur" og síðan var ekið sem leið lá upp á Kjalarnes. Það voru undur og stórmerki; nefnilega stafalogn og blíðuveður. Eitthvað sem sjaldan skeður. Við gengum þarna góðan hring og virtum fyrir okkur fuglalífið og náttúruna.
Þarna var gríðarlegt mávager og einstaka æðarkolla á hreiðri. Mikið var af æðarblikum.

En hvað um það, við gengum þarna um svæðið í bliðunni og tókum eitt gott nestisstopp. Enduðum á að ganga upp á Borgir sem er rúmlega 40 m hár klettur.

Þetta var fínn göngutúr um svæði sem kom á óvart í veðri sem kom ennþá meira á óvart.

Gönguleiðin


Monday, May 20, 2013

Úlfarsfell 18.5.2013

Við tókum okkur til og fórum í hressingargöngu á Úlfarsfell. Það var ágætt veður, ekki hlýtt en þurrt og strekkingsvindur. Við fórum upp á venjulegum stað, lögðum á bílaplaninu fyrir innan byggðina í Úlfarsfellsdal. Eins og margir vita er Úlfarsfell vinsælt fell til heilsubótargöngu og má sem dæmi nefna Reyni Traustason hinn öfluga ritstjóra DV en á Úlfarsfelli hefur hann skilið eftir tugi kílóa. Hann hefur gengið að eigin sögn yfir 500 sinnum á fellið.

Ferðin okkar tók rúman klukkutíma. Steinunn fór Mosfellsbæjarmegin niður og ég sótti hana þangað. Við fórum svo á kaffistofuna í Álafosshvosinni og fengum okkur súpu. Ég fékk mér íslenska kjötsúpu og SMG fékk sér kjúklingasúpu. Það var ljómandi. Síðan var haldið heim á leið og tekið til við önnur verkefni.


Gönguleiðin

Sunday, March 31, 2013

Írafell 30. mars 2013

Það var laugardagurinn fyrir páska og fínasta veður. Við ákváðum að fara í bíltúr og kannski hreyfa okkur eitthvað. Ég var lengi búinn að hugsa mér að fara og taka myndir af Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi og svo Reynivöllum í Kjós. Við dressuðum okkur í útiföt og drifum okkur af stað. Birtan var fín og ég náði fínum myndum á báðum þessum kirkjum. Steinunn var að venju búin að gúggla álitlegar gönguleiðir og kom í ljós að í Kjósinni var til dæmis hægt að velja um tvö fell, Írafell og Sandfell. Þegar að var komið ákváðum við að ganga á Írafellið í þetta skiptið en það er um 260 m hátt fell. Bærinn Írafell stendur undir fellinu en við hann er Írafellsmóri kenndur. Við keyrðum fram hjá Vindáshlíð og komum þá auga að þar er líka kirkja. Við gengum svo á fellið og var það þægileg ganga. Þegar niður kom aftur fórum við í Vindáshlíð, ég tók myndir af kirkjunni og við tókum okkur sæti á bekk og drukkum nestið.
Síðan var ekið heim.





Leiðin skv. Sports Tracker

Thursday, March 14, 2013

Elliðaárdalur 17. febrúar 2013

Við gengum svokallaðan Stífluhring með Guðmundi og Stínu þennan fína dag. Það var ágætisveður, smá frost en bjart og fínt.
Við tókum þetta frekar rólega en þó samt af festu og einurð.





Á eftir fengum við svo kaffi og meððí í B19.

Thursday, February 21, 2013

Búrfellsgjá

Það var laugardaginn 16. febrúar sem við tókum okkur til og fórum í göngutúr. Keyrðum í gegnum Heiðmörkina og lögðum á stæðið þar sem gengið er inn í Búrfellsgjá.
Veðrið var gott, bjart og þurrt og smá frost. Göngufæri var eins og best var ákosið og gengum við alveg inn í gjána. Ég gerði það að gamni mínu að láta Sports Tracker mæla þetta og túrinn reyndist vera 4,37 km. Tíminn sem þetta tók var 1:35:14. Nákvæmt skal það vera.
Þetta var hressandi og þægilegur göngutúr.




 Horft til Helgafells

Saturday, January 26, 2013

Úlfarsfell 20.janúar 2013

Þetta er fyrsta gönguferð ársins þar sem gengið er annarsstaðar en á jafnsléttu. Tilefni þessarar göngu má kannski rekja til þess að til stendur að skrá sig í eitt fjall á mánuði hjá FÍ og hefst það ævintýri næsta laugardag með göngu á Kóngsfell í Bláfjöllum. Síðan á að ganga mánaðarlega á eitthvert útvalið fjall.
Gönguferð dagsins var hugsuð sem þjálfunarferð fyrir meiri átök auk þess að kanna búnað og annað sem nauðsynlegt er að hafa í lagi. Nú nú en sem sagt, þær Stína og Steinunn höfðu ákveðið að gengið skyldi í dag og ákveðið var að hittast á bílaplaninu fyrir neðan Úlfarsfellið þegar maður kemur inn fyrir byggðina í Úlfarsárdalnum. Strekkingsvindur var á planinu, hiti um 5 gráður en mikil loftkæling, úrkomulaust. Við bjuggumst til göngu með stafi og mal, þ.e.a.s. undirritaður var með bakpoka, en það var hluti af þjálfuninni að taka til í bakpoka og bera hann. Við stikuðum af stað og sóttist vel. Konum þótti við fara einum of geyst og má til sannsvegar færa því það segir mér Hjálmur göngufræðingur að skynsamlegast sé að fara rólega af stað því annars sé hætta á að fólki sprengi sig. Heldur bætti í vind eftir því sem ofar dró og þar kom að Steinunni fannst sem hún myndi fjúka ef hún ekki hengdi sig aftan í sinn ágæta. Sóttist ferðin hægt en örugglega. Víða var skreipt í spori vegna ísingar og því betra að fara varlega. Nauðsynlegt er að kaupa hálkubrodda (sem áður hétu mannbroddar en það heiti var bannað af Jafnréttisráði) og festa á skóbúnað sinn. Við komumst upp að húsinu á topp. fellsins og fengum þar aðeins skjól og gátum notið þess sem upp kom úr bakpokanum. Bálhvasst var á toppnum.
Eftir ca 15 mín stopp var haldið af stað niður aftur og var það sínu léttara, bæði undan brekkur og vindur frekar á eftir.
Þegar niður kom var skoðað ferlið í SportsTracker og þá kom í ljós að þetta voru 4 km og við höfðum verið 1,42 klst í ferðinni. Hæðin reyndis verða ca. 360 m.
Við ákváðum að leggja lykkju á hala okkar og fá okkur hressingu og var ákveðið að fara í veitingastofuna í Álafosskvosinni og þar fengum við okkur ágætan morgunverð með beikoni og allskonar.
Síðan fór hver sína leið.

Hér eru 3 myndir sem teknar voru í lok ferðar. Myndavélin var ekki með í för og í rokinu á fellinu gleymdist að taka toppmyndir á símann.

Eftir gönguna fyrir utan kaffistofuna

                     Gluggað í Mosfellspóst                                 Álafoss