Tuesday, June 13, 2017

Litli Meitill

Í blíðviðrinu á sunnudaginn 11. júní síðast liðinn ákváðum við hjúin að skella okkur í góðan göngutúr. Vorum einhverja stund að bræða með okkur hvert ætti að fara og ákváðum svo að labba á Geitafell í Þrengslum. Þegar þangað kom leist okkur nú ekki meira en svo á það, því það er nokkuð drjúg gönguleið. Það vill því svo vel til að beint á móti Geitafelli eru fellin Litli- og Stóri Meitill. Við ákváðum því að nú skyldum við ganga á þann litla. Hægt er að keyra slóða nær alveg að fellinu og gerðum við það og gengum svo af stað. Þetta er þægilegt svæði að ganga, óljósar gönguslóðir en þó sést alveg móta fyrir þeim.
Gangan upp tók einn og hálfan tíma enda var rólega farið. Smá príl er efst en allt í lagi.  Leiðin upp reyndist vera 2,02 km.  Við tókum okkur kaffipásu eða reyndar vatnspásu þarna upp í bliðviðrinu.


Smá norðan gola var en ekkert til ama. Eftir að hafa nært okkur og notið útsýnis héldum við niður aftur. Það spillti reyndar fyrir útsýninu að það var töluvert mistur í hæðarhryggnum sem lá yfir landinu.


Við vorum ánægð að lokinni göngunni og renndum til Þorlákshafnar í kaffi og kruðerí og síðan upp í Hveragerði til að kaupa blóm og fleira.


Fínn dagur.


Myndasyrpa: 


Á toppnum!

Fjallagróður

Sandfell og Geitafell sem til stendur að ganga á

Útsýnið er frábært

Komin upp!

Tuesday, July 21, 2015

Úlfarsfell 19.7.2015

Við tókum þá ákvörðun fljótlega efrir fótaferðatíma þennan sunnudagsmorgun að fá okkur hressingargöngu í hið gagnmerka fell Úlfarsfellið. Höfum reyndar oft gengið á það saman og Steinunn margsinnis ein og sér.

Við fórum upp í Úlfarsárdal og SMG lagði bílnum á hefðbundnum stað og við örkuðum af stað. Fórum upp nyrðri leiðina en hún er heldur brattari efst hin sú syðri. Það er laus möl efst í brekkunni og samt auðfarið. Þegar upp var komið stoppuðum við aðeins og blésum mæðinni en héldum svo áfram til suðurst en þar er fellið hæst. Þar var skrifað í gestabókina og svo haldið niður til baka.
Veðrið var alveg ljómandi, aðeins vindur en hann var bara hressandi.

Á leiðinni niður gengum við í gegnum heilmikla lúpínubreiðu, en lúpínan er heldur betura að breiða úr sér um land allt. Má eiginlega telja hana orðna hálfgerða umhverfisvá sem ekkert verður við ráðið. Eina jurtin sem hefur eitthvað í lúpínuna að segja er kerfillinn og telst hann víst illgresi líka.
Lúpínan hefur víst sést í 900 m hæð yfir sjó, nokkuð sem engum hafði dottið í hug að gæti gerst.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af okkur hjúunum á leiðinni  niður.


EG


SMG



Saturday, June 6, 2015

Sogin á Reykjanesi

Það var glampandi sólskin allan heila  laugardaginn, sem sagt í dag, en það er eitthvað sem telst til tíðinda hér á voru landi. Tíðarfarið í vor hefur verið með eindæmum kalt og leiðinlegt. Það þýðir líka auðvitað að gróður er miklu seinna á ferðinni heldur en undanfarin ár. Kannski núna fyrst að tré eru að laufgast og litur að koma á jörð. Úthagar eru samt æði gráir og guggnir, en ræktað land lengra komið.

Við höfðum lesið um fyrirbæri sem heitir Sogin og er á Reykjanesi. Síðast heyrðum við að þau Guðmundur og Stína hefði gengið þangað fyrir nokkrum dögum og kunnað vel við sig þar. Einnig hafði Fjalar, vinnufélagi SMG, farið þangað fyrir stuttu og birti flottar myndir á fésbókarsíðu sinni. Á síðasta sumri höfðum við ekið inn að Djúpavatni og lagt bílnum við Lækjarvelli og labbað þar aðeins um. Við vissum þá um Sogin en gengum ekki þangað.

Nú sem sagt ákváðum við að nýta þennan fallega sólardag til að skoða þetta náttúrufyrirbæri. Löguðm af stað um hálf tvöleytið og ókum sem leið lá suður Reykjanesbraut og tókum svo afleggjarann að Keili. Vegurinn þangað er ansi harður og ekki heppilegur til hraðaksturs. Við ókum svo fram hjá Lambafelli, en Lambafellsgjá klýfur fellið og áfram upp á Höskuldarvelli. Þar er bílastæði þar sem við lögðum bifreiðinni og héldum af stað inn í Sogin.

Við vorum nú ekki alveg viss um leiðina en gengum upp með læk sem nefnist Sogslækur.  Þarna voru nýgengin spor  þannig að við héldum ótrauð áfram. Sólin skein glatt en vindur blés af norðri og hitastigið var um 8 gráður á C. Við gengum alla leið inn i botn á Sogunum og af hæð þar fyrir ofan sáum við niður á Spákonuvatn.  Í bakaleiðinni gengum við aðeins austar og af brúninni þar mátti sjá Djúpavatn og Lækjarvelli sem áður var minnst á.

Litadýrð er mikil í Sogunum enda er þarna jarðhiti og allskonar litfagar útfellingar ber fyrir augu.  við tókum okkur góðan tíma í að virða þessa fegurð fyrir okkur og tókum helling af myndum.
Það er mikill leir í lækjarfarveginum og því betra að vera vel skæddur (Skóaður).

Þegar í bílinn var komið aftur fengum við okkur gott kaffi og kringlur og héldum síðan heim á leið. Þessi göngutúr tók um 3 klukkustundir en vandalaust er að fara þetta á mun styttri tíma.
Það er hiklaust hægt að mæla með því að leggja leið sína í Sogin og skoða litadýrðina sem þar má sjá.

Hér má svo sjá fáeinar myndir sem sýna ótvírætt fegurðina sem fyrir augu bar.







SMG
EG 




Litbrigðin eru mögnuð




Varmaútfellingar

Jarðhiti

Friday, August 23, 2013

Miðfell við Flúðir

Aldrei þessu vant var mikið góðviðri þennan dag sem var 2. ágúst 2013, sól í heiði og bjart um alla jörð. Við ákváðum að aka austur fyrir Fjall og upp að Flúðum. Reyndar var nú tilgangurinn líka að koma við í Heiðarbyggð við Langholtsfjall og skoða sumarbústað sem auglýstur var til sölu.

Við ókum sem leið lá austur og skoðuðum bústaðinn og reyndar annan líka á sama svæði sem er til sölu. Þessi staður er auðvitað magnaður að því er varðar útsýni og þess háttar auk þess sem þarna er hitaveita og öll þægindi. Hvað svo verður veit nú enginn.

Eftir að hafa skoðað þessi hús ókum við upp að Flúðum og skoðuðum aðeins þar í kring og m.a. fórum og litum á tjaldstæðið en það var gersamlega kjaftfullt að því er okkur sýndist.

Að þessu loknu ákváðum við að ganga á Miðfell sem er bæjarhóllinn þeirra á Flúðum.

Á vefsíðunni Gönguleiðir.is má lesa eftirfarandi:

Ljúf gönguleið á skemmtilegt fjall í Hreppum. Alls ekki erfið leið og hentar því flestum gönguvönum. Best er að ganga á fjallið að norðaustan og er smá útskot við veginn þar sem við leggjum í hann. Leiðin liggur á ská til vinstri upp á fellið og þar er upplagt að ganga hring á fjallinu til að njóta útsýnis. Höldum svo sömu leið niður aftur.

Nánari lýsing:
Það má kannski segja að Miðfell sé bæjarfjall íbúa á Flúðum. Sá er þetta ritar gekk á fjallið eitt fallegt sumarkvöld þegar kvöldsólin baðaði Suðurlandið með geislum sínum.
Gangan á fjallið er ekki löng. Við göngum upp grasi vaxna hlíðina á norðurhluta fjallsins sem liggur því sem næst frá norðri til suðurs. Við göngum rangsælis á fjallið og förum því beint á hæsta hnúkinn sem er norðan meginn á fjallinu.
Við sjáum strax að þokkalega stórt vatn er á toppnum, kallað Fjallsvatn. Á veturnar frýs það oft og sökum þess hversu lítil hreyfing er í því má oft sjá í gegn um ísinn niður á botn.
Þegar við göngum hringinn á fjallinu má sjá gríðarmikið útsýni yfir fjall- og flatlendi Suðurlands. við sjáum Hvíta og Litlu Laxá liðast um undirlendið. Jarlhettur og Langjökull sjást í fjarska og Bláfell 

litlu lengra. næst okkur sjáum við Gálgafell og þar undir er bærinn Galtafell. Þar fæddist myndhöggvarinn Einar Jónsson árið 1874.
Eftir góðan hring höldum við niður hlíðina að bílnum.

Við gengum merkta gönguleið upp á fellið og síðan í kringum vatnið. Gleymdum auðvitað ekki að signa okkur áður en við komum að því. Enda fór það svo að engan sáum við nykurinn.

Eftir að hafa notið útsýnis og veðurblíðu héldum við aftur niður og heim á leið.

Hér má sjá leiðina ásamt fleiri upplýsingum.

http://www.sports-tracker.com/#/workout/eikigrims/fpb3ui83soccnams






Nokkrar myndir úr ferðinni

Sunday, June 30, 2013

Selskógur 15.6.2013

Þetta var fyrsta útilega sumarsins með hjólhýsið. Upphaflega hafði verið áætlað að fara  norður í Þórdísarlund en svo fóru að renna á okkur tvær grímur hvort við ættum að fara þangað eða eitthvað annað. En við lögðum af stað og ein hugmyndin var að fara að Lýsuhóli á Snæfellsnesi en Steinunn hafði nú fyrirhyggju á og hringdi þangað og þar var þá blindþoka. Það var þá afskrifað. Þá var það Húsafell og hún hringdi þangað líka og þá var nú farið að fjölga þar ansi mikið. Svo var það bara á leiðinni eftir göngin að Selskógur kom upp í hugann og við drifum okkur þangað. Þar var ekki mikið fjölmenni og auðvelt að fá gott stæði fyrir hjólhýsið. Þetta var sem sagt föstudaginn 14. júní þetta merka ár 2013. Við lögðum húsinu á ágætu stæði og höfðum það bara notalegt.
Daginn eftir var glampandi sólskin og við ákváðum að fara í göngutúr og leiðin sést hér á myndinni og nánar ef klikkað er á linkinn. Við gengum sem leið lá upp með gilinu, upp fyrir skógræktina og síðan ofan klettabeltis erm þarna er. Höfðum fínt útsýni yfir sumarbústaðasvæðið og raunar mest allan dalinn.
Við rákumst á ýmsar hindranir á leiðinni en erfiðust var rafmagnsgirðing í kringum skógræktina. Það var snúið að koma SMG þar yfir en að lokum notaði hún rolluaðferðina og skreið undir girðingu í lækjarfarvegi.

Gönguleiðin


Í bakaleiðinni komum við við hjá Hildi forstjóra Iðunnar og Einari og þágum veitingar. Það var notalegt.




Nokkrar myndir úr göngunni

Saturday, June 29, 2013

Búrfellsgjá 11.6.2013

Nýstofnað göngufélag Iðunnar fór í sína fyrstu gönguferð þann 11. júní 2013. Mæting var fremur dræm en þeir sem gengu voru Hildur Elín Vignir forstýra og Einar hennar maður og Einar sonur þeirra og svo við Steinunn.
Gengið var í Búrfellsgjá. Veðrið var ágætt, svolítill vindur, en þurrt að kalla.
Við gengum þetta fremur rólega og skoðuðum gjótuna djúpu, réttina og hellaskúta og röbbuðum um daginn og veginn eins og gengur. Fórum alveg upp í gíginn. Margt var spjallað og spekúlerað á leiðinni og var það bæði fróðlegt og skemmtilegt.

Þetta var hressandi og fínn göngutúr.

Gönguleiðin


Wednesday, June 19, 2013

Kjalarnes 1.6.2013

Það verður nú varla sagt að vel hafi viðrað að undanförnu, legið í suðvestanátt með roki og rigningu og verið ansi þungt yfir öllu. Bjartara hefur verið á Norðausturlandi og sólin skinið þar. Guðmundur títtnefni orðaði það við mig í síðustu viku að Stína hefði hug á að ganga á Þríhyrning. Þau hjón höfðu gengið á það merka fjall fyrir 12 árum síðan og langaði til að endurtaka leikinn. Ég tók þessu harla vel og færði í tal við SMG, Henni leist vel á. Reyndar var það samt þannig að í vinnunni hjá henni var ákveðið að fara í sveitaferð til Bigga og Óskar að Neðra-Seli á laugardeginum. Þetta hafði nú ekki verið fastmælum bundið en þegar spáð var þungbúnu veðri ákváðum við að fara austur með þau Birtu og Oliver með okkur. Það var fínn túr og öllum fannst gaman. Nú en hvað um það. Meðan ég var í messunni á sunnudeginum hringdi Guðmundur í SMG og minntist á að hann væri fullur af kvefi en þau langaði að labba eitthvað. Þegar ég kom heim var málið rætt og við fórum svo til þeirra milli 13:30 og 14.

Nú það skipti engum togum að Guðmundur sagði ákveðið; "Nú komið þið með okkur" og síðan var ekið sem leið lá upp á Kjalarnes. Það voru undur og stórmerki; nefnilega stafalogn og blíðuveður. Eitthvað sem sjaldan skeður. Við gengum þarna góðan hring og virtum fyrir okkur fuglalífið og náttúruna.
Þarna var gríðarlegt mávager og einstaka æðarkolla á hreiðri. Mikið var af æðarblikum.

En hvað um það, við gengum þarna um svæðið í bliðunni og tókum eitt gott nestisstopp. Enduðum á að ganga upp á Borgir sem er rúmlega 40 m hár klettur.

Þetta var fínn göngutúr um svæði sem kom á óvart í veðri sem kom ennþá meira á óvart.

Gönguleiðin