Saturday, May 28, 2011

Langholtsfjall

Sunnudaginn 4. apríl 2010 var blíðskaparveður en engin leið að hanga bara í borginni yfir ekki neinu. Við ákváðum því að leggja land undir fót og fara í bíltúr eitthvað austur í sveitir. Við svo sem vissum ekki hver við ætluðum en tókum fljótt stefnuna á uppsveitir Árnessýslu og Hrunamannahreppurinn varð fyrir valinu. Ókum upp Skeiðaveg og virtum fyrir okkur blómleg býli og blá fjöll í fjarska. Það var ennþá vetrargrámi yfir öllu eins og eðlilegt má telja en samt mátti vel merkja að vorið var ekki langt undan.
Við keyrðu sem leið lá inn á Langholtsveginn og upp á tjaldstæðið við Álfaskeið. Það var að sjálfsögðu ekki komið í gagnið á þessu vori frekar en önnur tjaldstæði landsina en þau opna alla jafna ekki fyrr en um miðjan maí.
Við lögðum bílnum á stæðinu og ákváðum að ganga á Langholtsfjallið sem er nú ekki mjög hátt en kallast þó fjall eigi að síður. Þetta var frekar auðveldur göngutúr en að sjálfsögðu aðeins á fótinn. Þarna upp er fínt útsýni til allra átta, til dæmis blasir Hekla við í öllu sínu veldi í austurátt og í vesturátt sér til Skálholts og í Biskupstungur. Við stoppuðum þarna dágóða stund og tókum myndir.

Horft til Heklu
Steinunn á toppnum

Flúðir
Þegar niður af fjallinu kom var drekkutími og síðan haldið heim á leið. Við ókum það vestan við Langholtið og skoðuðum sumarbústaði sem þar eru fjölmargir enda útsýni með afbrigðum gott. Fórum í gegnum Flúðir og og svo heim.

No comments:

Post a Comment