Saturday, May 28, 2011

Svínadalsfjall

Það hefur lengi verið á verkefnaskránni að fara norður í Ljótshóla og taka myndir. Upphaflega hugmyndin var sú að taka videomynd með tali og bæta inn í hana ljósmyndum. Af þessu hefur ekki orðið fyrr en síðla í júní 2009 að ákveðið var að fara norður. Við fórum á föstudagskvöldi norður á Hvammstanga og gistum í húsi Stínu Jósefs. Það er fínt hús og af þeim sökum þurftum við ekki að taka með okkur hjólhýsið.
Nú nú. Á laugardeginum var blindþoka um morguninn en svo bráði nú af um hádegið. Við drifum okkur þá af stað austur og fram í Svínadal. Þar var glampandi sól og 16 stiga hiti. Við gerðum okkur klár og löbbuðum af stað upp með Hólsánni, sem er hægra megin á myndinni, sem leið lá upp í Hólsárskarð. Stoppuðum á leiðinni við Hólkot og við fossinn. Þegar komið var upp í skarðið ákváðum við að ganga á Nónfjallið því þótt ég hafi gengið Ljótshólafjallið sundur og saman í gamla daga hafði ég aldrei farið þar upp. Skýringin er sú að þar voru hvorki rollur né rjúpur en við þann fénað var alltaf verið að eltast í gamla daga.
Það var tiltölulega létt að komst upp á Nónfjallið og útsýnið var magnað. Í suðri sást til Kerlingafjalla og í norðri til Skagastrandar.
Það var skemmtilegt að fara þarna upp og tók ferðin um 5,5 tíma. Að þessari ferð lokinni fórum við í kaffi að Rútsstöðum og hittum Munda og Millu kát og hress að vanda.
Síðan var ekið til baka á Hvammstanga.

Nónfjallið séð frá Ljótshólum

Hvílir sig við klettinn

Ljótshólar séð af Hólsárskarðinu

Heldur eyðilegt vestur um á fjallinu

Á toppnum

Komin á toppinn

No comments:

Post a Comment