Það var sunnudaginn 4. október 2009 sem ákveðið var að fara í gönguferð með Guðmundi og Stínu og ákveðið að labba á Mosfell. Það telst nú ekki vera mikil fjallganga en þó talsverð hækkun frá jafnsléttu.
Við hittumst í Arkarholtinu og eftir smá kaffisopa var ekið inn í Mosfellsdaglinn og heim að Mosfelli. Lögðum bílunum á stæðinu við kirkjuna. Mosfell er þekkt úr Innansveitarkroniku sem gerist á þessum slóðum. Ábúendum á Hrísbrú sem er næsti bær var bölvanlega við klerkana á Mosfelli og Ólafur þríhross bóndi á Hrísbrú kallaði þá „þá andskota“! við gengum upp með girðingu og tókum svo stefnuna á háfellið.
Talið er að Mosfellið sé um 400-450 þúsund ára gamalt. Manni finnst það
ærinn tími en í sögu jarðar er það eins og sekúndubrot. Og borið saman við
nærliggjandi fjöll s.s. Esjuna, sem er hátt í 3 millj. ára gömul, er þetta ekki hár aldur.
Samt hefur Mosfellið fengið að kenna á ýmsu um sína daga. Það hefur legið undir
fargi ísaldarjökla, skafið og núið af þeim, enda ber það þess augljós merki. Því er ekki
unnt að áætla hversu stórt það hefur verið í upphafi. http://www.fi.is/files/IMG_1185860283.pdf
Það var fínt veður, nokkuð bjart og norðanátt og smá frost. Skemmtilegt gönguveður. Við gengum um háfellið og virtum fyrir okkur frábært útsýnið en Esja blasir þarna við í allri sinni dýrð.
Esjan
Á toppnum
Roggnir þessir
Við
Kirkjan á Mosfelli
Við röltum svo í rólegheitum niður aftur og skoðuðum kirkjuna á Mosfelli og kirkjugarðinn en kirkjan var að sjálfsögðu læst. Það er haft fyrir satt að bændur á Hrísbrú hafi stolið kirkjuklukkunni á Mosfelli og falið hana á Hrísbrú í áratugi ef ég man rétt. Hún á svo að hafa komið í ljóst þegar gríðarlegum fjóshaug var mokað í burtu. Hef þetta úr Innansveitarkroniku (eftir stopulu minni) og sel ekki dýrar en ég keypti.
Við þágum svo góðar veitingar í Arkarholtinu eins og við var að búast.
No comments:
Post a Comment