Þetta heitir nú kannski að ráðast á fjallið þar sem það er lægst, eða þannig, en við tókum stefnuna á þetta fagra fell þann 18 maí. Það drógst að fara á fjall aprílmánaðar og þessvegna er Úlfarsfellið fjall þess mánaðar. Reyndar stóð til að við færum á fellið með Karlakór Kjalnesinga þann 8. maí en þá var ég að drepast úr kvefi og hálsbólgu og fór hvergi. Þeir fóru í svokallaða morgungöngu með Páli Ásgeir Ásgeirssyni.
Fellið er eitthvað um 300 m yfir sjó og mjög þægilegt uppgöngu.
Ekki er nú mikinn fróðleik að finna á netinu um Úlfarsfell. Til dæmis tókst ekki að finna hvers vegna það heitir Úlfarsfell.
Eftirfarandi klausa er af netinu:
Eitt elsta skógræktarsvæðið sem er í höndum Skógrætarfélags Mosfellsbæjar er Hamrahlíðin undir Úlfarsfelli. Þar var byrjað að planta 1957 þegar búið var að gera samning við hjónin Helgu Magnúsdóttur og Sigstein Pálsson um leigu á 29,5 hekturum lands til 75 ára. En árið 1990 var samningurinn endurnýjaður og landið stækkað í 42,6 hektara. Fyrstu árin var árangurinn ekki eins góður og síðar varð. Bæði var jarðvegurinn rýr og eins var ennþá búfé á svæðinu og reyndist erfitt að halda girðingunni fjárheldri. En með mikilli vinnu tókst að gera þetta svæði að skemmtilegu útivistarsvæði sem er mikið notað. Búið er að gera göngustíga og setja upp bekki. Jólatrjáasala er stór þáttur í starfi Skógræktarfélagsins og hafa verið seld jólatré allt frá árinu 1984.
Veðrið í göngunni okkar var ágætt en að vísu blés hressilega um okkur á leiðinni upp. Við fórum hefðbundna leið upp frá Leirtjörn og vorum rúman klukkutíma í túrnum.
Því miður var myndavél ekki með í för þannig að engar myndir af vettvangi fylgja þessum kafla.
No comments:
Post a Comment