Sunday, July 24, 2011

Grímannsfell

Það hefur stundum borið á góma hjá okkur Guðmundi smið að labba eitthvað saman og þannig var það núna að okkur fór að langa að taka góðan göngutúr. Hann sagði líka að Stína hefði verið að rifja það upp að núna væri nánast ár liðið frá því við gengum saman á Þorbjörn eins og sagt hefur verið fá hér á þessum vettvangi.
Hvað um það við ákváðum að ganga á hið gagnmerka Grímannsfell sem ef upp af Gljúfrasteini. Við vorum í Arkarholti rúmlega átta um kvöldið 21. júlí og lögðum af stað um hálfníu leytið.
Keyrðum upp hjá Helgadal og að Túnfæti þar sem Diddú býr og lögðum bílnum þar og gengum af stað sem leið lát. Leiðarlýsingu höfðum við fengið nokkur skýra í bókum og af vef, auk þess sem leiðin reyndist svo stikuð. Þetta er tiltölulega þægilega leið á þetta "lúna" fell eins og því var einhversstaðar lýst.


Spáð og spekúlerað

Veðrið var afar gott til gönguferða, skýjað, 12 stiga hiti og nánast logn. Okkur miðaði vel þó öðru hvoru væri numið staðar og blásið úr nös. Útsýni er frábært af fellinu og þó nokkur móða eða mistur væri í lofti þá sáum við vítt og breitt um land; Reykjavík, Reykjanes, Mosfellsbæ og fleira.


Horft niður Mosfellsdalinn


Við gengum upp á næst hæsta stað á fellinu en slepptum því að ganga á Stórhól sem er hæsti staðurinn. Kvað þá Guðmundur vísu að hætti fornmanna.


Á toppi

Í bakaleiðinni týndu þær Stína og Steina blóðberg til kryddunar síðar meir. Ég hlakka til lambalærisins!


Blóðbergstýnsla

Guðmundur bar með sér splunkunýja Nikon myndavél og notaði hana óspart eins og sjálfsagt er í gönguferðum. Hann hallaði sér útaf og skoðaði árangurinn og virtist harla ánægður með útkomuna.


Þetta eru nú fínar myndir!
Segir ekki gjör af göngu þessari.

Monday, June 20, 2011

Litla Sandfell

Við fórum í útilegu til Þorlákshafnar seinnipart laugardagsins 18. júní 2011. Fórum ekki fyrr af stað vegna þess að SMG var að passa í Krókabyggð og ég þurfti að spila við brúðkaup í Háteigskirkju. Við vorum í góðu yfirlæti á tjaldstæðinu í Þorlákshöfn og fengum okkur góðan göngutúr um kvöldið og ég tók svolítið af myndum. Veðrið var bjart en þónokkur svöl gola af hafi sem gerði okkur reyndar lítið til.
Á sunnudagsmorguninn tókum við annan göngutúr og nú út í Hafnarnesvita. Það var sól og fínasta veður.
Seinnipartinn lögðum við af stað heim og ætluðum að skoða hellinn við Arnarker en vegurinn var lokaður svo við héldum áfram. Þegar upp á Þrengsli kom ákváðum við að ganga á Litla Sandfell og gerðum það. Þetta var svona klukkutíma labb fram og til baka en ágætt.


Komin upp


Gott að hvíla lúin bein

Að þessu loknu héldum við heim á leið.

Sunday, June 5, 2011

Vífilsfell

Það var í mestu makindum sem ég var að drekka kaffi í safnaðarheimili Árbæjarkirkju sunnudaginn 22. maí 2011 þegar sms kom frá SMG um að fá að frétta hvað ég væri að gera. Ég brást við skjótt og hringdi. Þá var það þannig að þau höfðu litið við Hjálmur og María og var hugur í Hjálmi að ganga á Vífilsfellið enda var bjart og fallegt veður. Ég var strax til í að gera þetta, lauk við að renna niður pönnukökunni og klára úr kaffibollanum og dreif mig heim. Þá var SMG búinn að hafa samband við Villa og Immu og ætluðu þau að koma með.
Við hittumst svo öll við Olísstöðin við Vesturlandsveginn og ókum síðan sem leið lá að afleggjaranum inn í Jósefsdal. Hjálmur var sjálfkjörinn fararstjóri því hann hafði margoft gengið á fellið og þekkti því alla staðhætti. Við löbbuðum síðan sem leið lá upp stíginn og sóttist ferðin ágætlega. Þetta er auðvitað nokkuð bratt þarna upp malarstíginn og frekar laust í honum en allt gekk þetta vel. Síðan tók við aflíðandi halli þar til komið var að móbergshlíð sem betra er að vara sig á. Hún getur verið hættuleg ef sandur er á klöppunum því þá er hætt við að manni geti skrikað fótur.


Ferðafélagarnir


Hressing á háfellinu


Horft til höfuðborgarinnar


Við

Við príluðum síðan upp á öxlina á háfellinu og gekk það allt slysalaust. Þegar upp var komið tókum við okkur tíma í að fá okkur hressingu og taka myndir. Þarna er feiknamikið útsýni en skyggnið var kannski ekki alveg upp á það besta, t.d. byrgði  mökkurinn frá gosinu alveg sýn til austurs. Þarna kom upp pólsk kona með tvo syni sína og fékk að fylgja okkur niður aftur. Það getur verið gott að fá hjálparhönd í prílinu.
Niðurferðin gekk með ágætum og við bílana var kvaðst hlýlega og hver hélt til síns heima.


Sjáið tindinn, þarna fór ég!



****************************************************************************
Hér að neðan er tekið af netinu:

Úlfarsfell

Það var á ágætum laugardagsmorgni og við ákváðum að fara í smá göngutúr og labba eitthvað sem reyndi örlítið á. Fyrir valinu varð Úlfarsfellið sem er þægilegt gönguferðarfell af minni gerðinni. Við fórum hefðbundna leið upp, þ.e. göngustíginn frá bílastæðinu. Við höfum einhverntíma farið beint upp en upp á síðkastið höfum við farið þennan stíg sem er þægilegur og reynir ekki mikið á. Við tókum þennan göngutúr ekki með neinu trukki en gengum svona jafnt og þér. Þegar upp var komið var þónokkur gola og lofthiti var nú ekki upp á marga fiska frekar en aðra daga þetta vorið. Túrinn tók um einn og hálfan tíma og vorum við bara frísk á eftir.
Engar myndir voru teknar í þessum túr.

Úr garðinum í B19

Tuesday, May 31, 2011

Helgafell við Hafnarfjörð

Á föstudaginn langa, 22. apríl 2011, var ágætt veður, aðeins gola og 7 stiga hiti, gekk á með regnskúrum fyrri partinn en hékk að mestu þurr seinnipartinn. Ég fór og söng við hátíðarmessu í Árbæjarkirkju fyrir hádegið og þegar ég kom heim var hugur í Steinunni að labba eitthvað. Ég var alveg til í það og við bjuggum okkur til útivistar. Það var ákveðið að ganga á Helgafell og við ókum þangað að vísu með viðkomu á heilmiklum markaði í Hafnarfirði þar sem seld voru föt og skór og þvílíkt. Engin kaup voru gerð þar og því brunað í Kaldársel. Þar var hópur af bílum og töluvert af fólki að fara á fellið eða koma af því. Helgafell er sennilega eitt vinsælasta ef ekki vinsælasta fell í nágrenni Reykjavíkur til áferðar.
Okkur gekk ferðin upp alveg ágætlega, fórum ekki í neinum flýti en bara höfðum okkar hentisemi. Stoppuðum aðeins á toppnum til að skrifa í gestabók og taka myndir.
Niðurferðin var á sama hátt þægileg og góð og reyndist túrinn taka rétt um 2 tíma. Vorum rétt rúmlega klukkutíma á leiðinni upp sem er víst frekar í rólegri kantinum. Förum greiðar næst.

Við upphaf göngunnar

Kominn upp!

Frúin á fellinu

Saturday, May 28, 2011

Langholtsfjall

Sunnudaginn 4. apríl 2010 var blíðskaparveður en engin leið að hanga bara í borginni yfir ekki neinu. Við ákváðum því að leggja land undir fót og fara í bíltúr eitthvað austur í sveitir. Við svo sem vissum ekki hver við ætluðum en tókum fljótt stefnuna á uppsveitir Árnessýslu og Hrunamannahreppurinn varð fyrir valinu. Ókum upp Skeiðaveg og virtum fyrir okkur blómleg býli og blá fjöll í fjarska. Það var ennþá vetrargrámi yfir öllu eins og eðlilegt má telja en samt mátti vel merkja að vorið var ekki langt undan.
Við keyrðu sem leið lá inn á Langholtsveginn og upp á tjaldstæðið við Álfaskeið. Það var að sjálfsögðu ekki komið í gagnið á þessu vori frekar en önnur tjaldstæði landsina en þau opna alla jafna ekki fyrr en um miðjan maí.
Við lögðum bílnum á stæðinu og ákváðum að ganga á Langholtsfjallið sem er nú ekki mjög hátt en kallast þó fjall eigi að síður. Þetta var frekar auðveldur göngutúr en að sjálfsögðu aðeins á fótinn. Þarna upp er fínt útsýni til allra átta, til dæmis blasir Hekla við í öllu sínu veldi í austurátt og í vesturátt sér til Skálholts og í Biskupstungur. Við stoppuðum þarna dágóða stund og tókum myndir.

Horft til Heklu
Steinunn á toppnum

Flúðir
Þegar niður af fjallinu kom var drekkutími og síðan haldið heim á leið. Við ókum það vestan við Langholtið og skoðuðum sumarbústaði sem þar eru fjölmargir enda útsýni með afbrigðum gott. Fórum í gegnum Flúðir og og svo heim.

Mosfell

Það var sunnudaginn 4. október 2009 sem ákveðið var að fara í gönguferð með Guðmundi og Stínu og ákveðið að labba á Mosfell. Það telst nú ekki vera mikil fjallganga en þó talsverð hækkun frá jafnsléttu.
Við hittumst í Arkarholtinu og eftir smá kaffisopa var ekið inn í Mosfellsdaglinn og heim að Mosfelli. Lögðum bílunum á stæðinu við kirkjuna. Mosfell er þekkt úr Innansveitarkroniku sem gerist á þessum slóðum. Ábúendum á Hrísbrú sem er næsti bær var bölvanlega við klerkana á Mosfelli og Ólafur þríhross bóndi á Hrísbrú kallaði þá „þá andskota“! við gengum upp með girðingu og tókum svo stefnuna á háfellið.
Talið er að Mosfellið sé um 400-450 þúsund ára gamalt. Manni finnst það
ærinn tími en í sögu jarðar er það eins og sekúndubrot. Og borið saman við
nærliggjandi fjöll s.s. Esjuna, sem er hátt í 3 millj. ára gömul, er þetta ekki hár aldur.
Samt hefur Mosfellið fengið að kenna á ýmsu um sína daga. Það hefur legið undir
fargi ísaldarjökla, skafið og núið af þeim, enda ber það þess augljós merki. Því er ekki
unnt að áætla hversu stórt það hefur verið í upphafi. http://www.fi.is/files/IMG_1185860283.pdf


Það var fínt veður, nokkuð bjart og norðanátt og smá frost. Skemmtilegt gönguveður. Við gengum um háfellið og virtum fyrir okkur frábært útsýnið en Esja blasir þarna við í allri sinni dýrð.

Esjan

Á toppnum

Roggnir þessir

Við


Kirkjan á Mosfelli

Við röltum svo í rólegheitum niður aftur og skoðuðum kirkjuna á Mosfelli og kirkjugarðinn en kirkjan var að sjálfsögðu læst. Það er haft fyrir satt að bændur á Hrísbrú hafi stolið kirkjuklukkunni á Mosfelli og falið hana á Hrísbrú í áratugi ef ég man rétt. Hún á svo að hafa komið í ljóst þegar gríðarlegum fjóshaug var mokað í burtu. Hef þetta úr Innansveitarkroniku (eftir stopulu minni) og sel ekki dýrar en ég keypti.

Við þágum svo góðar veitingar í Arkarholtinu eins og við var að búast.

Svínadalsfjall

Það hefur lengi verið á verkefnaskránni að fara norður í Ljótshóla og taka myndir. Upphaflega hugmyndin var sú að taka videomynd með tali og bæta inn í hana ljósmyndum. Af þessu hefur ekki orðið fyrr en síðla í júní 2009 að ákveðið var að fara norður. Við fórum á föstudagskvöldi norður á Hvammstanga og gistum í húsi Stínu Jósefs. Það er fínt hús og af þeim sökum þurftum við ekki að taka með okkur hjólhýsið.
Nú nú. Á laugardeginum var blindþoka um morguninn en svo bráði nú af um hádegið. Við drifum okkur þá af stað austur og fram í Svínadal. Þar var glampandi sól og 16 stiga hiti. Við gerðum okkur klár og löbbuðum af stað upp með Hólsánni, sem er hægra megin á myndinni, sem leið lá upp í Hólsárskarð. Stoppuðum á leiðinni við Hólkot og við fossinn. Þegar komið var upp í skarðið ákváðum við að ganga á Nónfjallið því þótt ég hafi gengið Ljótshólafjallið sundur og saman í gamla daga hafði ég aldrei farið þar upp. Skýringin er sú að þar voru hvorki rollur né rjúpur en við þann fénað var alltaf verið að eltast í gamla daga.
Það var tiltölulega létt að komst upp á Nónfjallið og útsýnið var magnað. Í suðri sást til Kerlingafjalla og í norðri til Skagastrandar.
Það var skemmtilegt að fara þarna upp og tók ferðin um 5,5 tíma. Að þessari ferð lokinni fórum við í kaffi að Rútsstöðum og hittum Munda og Millu kát og hress að vanda.
Síðan var ekið til baka á Hvammstanga.

Nónfjallið séð frá Ljótshólum

Hvílir sig við klettinn

Ljótshólar séð af Hólsárskarðinu

Heldur eyðilegt vestur um á fjallinu

Á toppnum

Komin á toppinn

Reykjafell

Reykjafellið er rislítið fell,
rúmlega hundrað metrar.

Svo kvað skáldið (ef skáld skyldi kalla) en Reykjafellið er fellið fyrir ofan Reykjalund í Mosfellsbæ.en á það gengum við þann 5. júní 2009 og var það fjall maímánaðar. Ekki hafði fyrr gefist kostur á að afgreiða það mál.
Við lögðum bílnum á bílastæði út og ofan við Reykjalund og lölluðum svo upp. Veðrið var fínt og ágætt skyggni. Kannski einhver móska en ljómandi gaman.

Skyggnst um af toppnum

Horft yfir Mosfellsbæ og Sundin

Styður sig við steininn

Steinunn gefur vink

Friday, May 27, 2011

Húsfell

Húsfell er um það bil 3 km austar en Helgafell og aðeins lægra eða um 287 m eftir því sem næst verður komist. Við ákváðum að hafa Húsfellið fyrir fjall eða fell júnímánaðar og drifum okkur af stað eftir vinnu þann 12. júní. Það var prýðisgott veður, bjart og fínt.
Við lögðum bílnum á hefðbundnum stað við Kaldársel og gengum inn með Helgafelli og síðan austur að Húsfelli. Þetta var fremur auðveld ganga, fyrst yfir hraun og mosaþembur og svo upp á fellið. Fórum ekki sömu leið til baka heldur gengum þá austanvert við Valahnúka.

Horft á Húsfell


Þegar upp var komið

Eftir gönguna

Það er býsna víðsýnt af fellinu og gaman að koma þarna. Í grenndinni er svo Búrfellsgjánin sem er efni í annan göngutúr.

Helgafell við Hafnarfjörð

Það var þann 22. mars 2009 sem ákveðið var að fara út að ganga. Afmælisbarn gærdagsins lét engan bilbug á sér finna þó enn hafi eitt árið bæst í árasafnið. Við ókum suður fyrir Hafnarfjörð og settum stefnuna á Helgafell. EG var nú ekki alveg viss hvort ætti að ganga á fellið og lagði til að ganga á smá hraunhól. Það var gert og tók sá göngutúr innan við mínútu og gönguhækkun var fjórir metrar. Þetta þótti nú þeirri fullorðnu frekar lítið og löðurmannlegt og því var tekið á rás og gengið á fellið hið mikla. Veðrið var ágætt, frekar bjart og þokkalegt skyggni. Fellið er 340 m yfir sjó en raunhækkun er ca 240 m eftir því sem næst verður komist.
Það var slangur af fólki á ferðinni og fóru sumir mikinn. Gönguferðin okkar tók um 2 tíma og 45 mín.

Úlfarsfell

Þetta heitir nú kannski að ráðast á fjallið þar sem það er lægst, eða þannig, en við tókum stefnuna á þetta fagra fell þann 18 maí. Það drógst að fara á fjall aprílmánaðar og þessvegna er Úlfarsfellið fjall þess mánaðar. Reyndar stóð til að við færum á fellið með Karlakór Kjalnesinga þann 8. maí en þá var ég að drepast úr kvefi og hálsbólgu og fór hvergi. Þeir fóru í svokallaða morgungöngu með Páli Ásgeir Ásgeirssyni.
Fellið er eitthvað um 300 m yfir sjó og mjög þægilegt uppgöngu.

Ekki er nú mikinn fróðleik að finna á netinu um Úlfarsfell. Til dæmis tókst ekki að finna hvers vegna það heitir Úlfarsfell.

Eftirfarandi klausa er af netinu:
Eitt elsta skógræktarsvæðið sem er í höndum Skógrætarfélags Mosfellsbæjar er Hamrahlíðin undir Úlfarsfelli. Þar var byrjað að planta 1957 þegar búið var að gera samning við hjónin Helgu Magnúsdóttur og Sigstein Pálsson um leigu á 29,5 hekturum lands til 75 ára. En árið 1990 var samningurinn endurnýjaður og landið stækkað í 42,6 hektara. Fyrstu árin var árangurinn ekki eins góður og síðar varð. Bæði var jarðvegurinn rýr og eins var ennþá búfé á svæðinu og reyndist erfitt að halda girðingunni fjárheldri. En með mikilli vinnu tókst að gera þetta svæði að skemmtilegu útivistarsvæði sem er mikið notað. Búið er að gera göngustíga og setja upp bekki. Jólatrjáasala er stór þáttur í starfi Skógræktarfélagsins og hafa verið seld jólatré allt frá árinu 1984.

Veðrið í göngunni okkar var ágætt en að vísu blés hressilega um okkur á leiðinni upp. Við fórum hefðbundna leið upp frá Leirtjörn og vorum rúman klukkutíma í túrnum.

Því miður var myndavél ekki með í för þannig að engar myndir af vettvangi fylgja þessum kafla.


Helgafell 22.2.2009

Í Mosfellssveit er fellið Helgafell en það er 215 m hátt. Afar þægilegt til hressingargöngu. Við tókum stefnuna á fellið þann 22. febrúar 2009. Það var fínt veður, bjart, svolítil gola og ekki kalt. Við lögðum af stað frá bílastæði í Helgafellslandi og gengum beint upp á fellið. Það var ósköp þægilegt og þegar upp var komið svipuðumst við um og skrifuðum í gestabók sem þar er. Héldum svo niður að norðanverðu sem er aðeins brattara en sú sleið sem við fórum upp. Allt gekk þetta ljómandi vel og var skemmtilegt.
Því miður var myndavélin fjarverandi þennan túr en hér fylgir blómamynd úr B19.

Wednesday, May 25, 2011

Formáli


Það var veturinn 2009 sem Steinunn varpaði fram þeirri hugmynd að byrja á leiknum „fjall mánaðarins“. Þetta tengist áhuga hennar á líkamsrækt og útiveru, en sá áhugi er sívaxandi. Hefur hún í gegnum tíðina iðkað göngur bæði styttri og lengri og má nefna að að eitt sinn gekk hún hinn fræga Laugaveg.

Eins og nafnið ber með sér er hugmyndafræðin sú að ganga á eitt fjall í hverjum mánuði ársins. Ekki var í upphafi skilgreint hvort alltaf skyldi vera um að ræða fjall í þess stóru merkingu eða bara venjulegt fell. Það hagar einmitt þannig til hér í kringum Reykjavík að þar er urmull af fellum. það lá því beinast við að byrja á því að ganga á þessi fell. Að vísu er Esjan í túnfætinum en hún kemur síðar til skjalanna. Á hana verður gengið eitthvert fagurt sumarkvöldið eða fallegan laugardag.

Hæst upp á tind